1. grein

Samtónn er samstarfsvettvangur tónskálda, textahöfunda, listflytjenda og hljómplötuframleiðenda.

2. grein

Aðilar að Samtóni eru STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og SFH, Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda.

3. grein

Tilgangur Samtóns er að vinna að sameiginlegum hagsmunum og styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa að tónlist. Samtónn mun þannig koma fram sameiginlega fyrir hönd íslenskra rétthafa að tónlist. Samtónn mun vinna að vernd og varðveislu tónlistar og réttinda, sem henni tengjast, og leita tækifæra til að efla og skapa sóknarfæri til handa rétthöfum tónlistar innan lands sem utan.

4. grein

Stjórn Samtóns er skipuð sex mönnum, þremur tilnefndum af STEFi og þremur af SFH.
Stjórnarmenn kjósa formann og varaformann stjórnar úr sínum hópi til eins árs í senn.

5. grein

Stjórninni er heimilt að ráða starfsmann eða fela tilteknum aðilum að vinna verkefni í þágu Samtóns gegn greiðslu.

6. grein

Formaður boðar stjórn saman til fundar þegar ástæða þykir til eða ef tveir stjórnarmenn fara fram á það. Boða skal stjórnarfundi að jafnaði með viku fyrirvara með skriflegri dagskrá.
Halda skal gerðarbók og skrá þar fundargerðir allra stjórnarfunda. Senda skal stjórnarmönnum fundargerð eftir hvern fund.

7. grein

Stjórnin getur ekki tekið neinar bindandi ákvarðanir ef tveir stjórnarmenn greiða atkvæði gegn því.

8. grein

Kostnaður vegna reksturs Samtóns skiptist að jöfnu milli STEFs og SFH.

9. grein

Samtónn starfar til reynslu í tvö ár. Að því tímabili loknu skulu samþykktir þessar endurskoðaðar ef STEF og SFH og einstök aðildarfélög þeirra samþykkja að halda áfram samstarfinu.