Fróðleikur um höfundarrétt

Segja má að höfundaréttur sé eignarréttur þess er býr til hugverkið. Höfundarétturinn gefur þeim sem skapaði verkið grundvöll til að fá þóknun fyrir hina listrænu sköpun. Án höfundaréttar væru listamenn án réttinda um leið og listsköpun þeirra kæmi fyrir augu og eyru almennings. Höfundarétturinn því orðinn  nánast  að engu ef hver sem er gæti notað verk þeirra án endurgjalds.

Þróunin í höfundarétti hefur oft haldist í hendur við þær framfarir sem hafa orðið í hvers konar fjölföldunartækni. Upphafið má rekja til þess er fyrstu prentvélarnar komu til sögunnar sem gerði það nauðsynlegt að vernda réttindi höfunda. Réttindi rithöfundarins og prentsmiðjueigandans væru því enginn  strax í upphafi,  gæti hver sem er prentað öll verk að vild án endurgjalds. Þessi umræða um höfundarréttinn hefur haldið áfram fram á okkar tíma, en í stað prentvélarinnar er komin til sögunnar hin stafræna fjölföldunartækni í ýmsu formi, þ.á m. á Internetinu.

Vernd hugverka

Samkvæmt höfundalögum á sá sem skapar listaverk höfundarétt að verkinu.
Sem dæmi um vernduð verk í skilningi laganna má nefna tónverk, bókmenntaverk, leiksviðsverk, kvikmyndaverk, myndlistaverk m.a. ljósmyndir, húsagerðalist, nytjalist og tölvuhugbúnað. Það er verkið sem slíkt sem nýtur verndar. Verndin nær t.d. ekki til hugmynda, hugtaka og aðferða t.d. reikningsaðferða
Höfundarréttur hefst þegar verkið verður til. Ekki eru t.d. gerðar kröfur til þess að verkið verði skráð til þess að það njóti verndar. Rétturinn gildir í 70 ár eftir andlátsár höfundar.

Einkaréttur höfundar

Kjarninn í rétti höfundarins er einkarétturinn. Höfundarréttur veitir höfundi einkarétt til þess að gera eintök af verkum sínum (oft nefnt fjölföldunarréttur,réttur til eintakagerðar) og til þess að birta almenningi verk sín með flutningi eða sýningu (birtingarréttur). Höfundur getur framselt réttindi sín til afnota á verkum sínum til annarra að hluta eða öllu leyti. Að jafnaði er krafist þóknunar fyrir slík afnot. Einkarétti er oft skipt í tvennt, annars vegar “neikvæðan einkarétt”sem heimilar höfundi að banna afnot verksins og hins vegar “jákvæðan einkarétt”, sem felur í sér að höfundur getur að vild ráðstafað réttindum sínum að hluta eða öllu leyti.

Sæmdarréttur höfunda

Samkvæmt höfundalögum á höfundur kröfu til þess að nafn hans verði getið sé um að ræða eintakagerð eða opinbera birtingu á verki hans. Bannað er að breyta verki eða birta það á þann hátt sem gæti skert heiður höfundarins.
Brot á höfundarétti getur haft í för með sér skaðabótaskyldu og refsingu,  sem getur verið sektir eða fangelsi.

Grannréttindi

Í höfundarétti er ennfemur að finna ákvæði um vernd listflytjenda(leikara,hljómlistarmanna,dansara o.fl.), hljómplötuframleiðenda (hljómplötu-fyrirtækja), kvikmyndaframleiðenda, útvarps- og sjónvarpsstöðva, ljósmyndara, framleiðenda gagnagrunna o.fl.
Verndartími þessarra hópa er 50 ár, frá því upptaka átti sér stað Ekki eru hér heldur gerðar kröfur til þess að verkið verði skráð til þess að það njóti verndar.

Umsýsla innheimtusamtaka

Félagsleg meðferð á réttindum höfunda,flytjenda og framleiðenda felst í því að heildarsamtök þessara þriggja hópa innheimta þóknun þeirra í stað hvers einstaks höfundar, flytjanda eða framleiðanda. Annað fyrirkomulag væri með öllu óframkvæmanlegt þar sem hver einstakur rétthafi getur með engu móti haft yfirsýn yfir alla þá notkun sem á sér stað á verkum hans á öld síbreytilegra dreifingaraðferða í tíma og rúmi. Slíkt væri einnig óhugsandi fyrir notendur verkanna svo sem útvarpsstöðvar sem semja við ein samtök frekar en sækja um leyfi fyrir hverjum flutningi hjá hundraðþúsundum rétthafa. Einkaréttur rétthafanna yfirfærist því í þóknunarrétt. Notkun á vernduðum verkum hvort sem talað er um útsent efni í útvarpi, sjónvarpi og kapli byggist því ekki á einstaklingsbundnum samningum heldur samingum við heildarsamtök rétthafa. Sama á sér stað varðandi hið svonenfnda IHM gjald sem IHM innheimtir fyrir fjölmörg rétthafasamtök af tækjum,diskum plötum eða öðrum hlutum til hliðrænnar eða stafrænnar upptöku. Sem dæmi um önnur innheimtusamtök rétthafa höfundaréttar eða grannréttinda má nefna STEF, SFH, RSÍ, Fjölís og Myndstef.

Takmarkanir

Í höfundalögunum, II.kafla, má finna nokkur ákvæði sem takmarka þann einkarétt sem að framan var getið. Er þessi réttur höfunda takmarkaður af félagslegum ástæðum og ívilnar t.d. tilteknum þjóðfélagshópum og má þar nefna reglur um útgáfu verka á blindraletri og til notkunar í heyrna- og málleysingjaskólum og notkun verka við fræðslustarfsemi, á söfnum á góðgerðasamkomum o.fl. Þessi ákvæði veita eftirfarandi heimildir:

  • Notandinn fær rétt til ótakmarkaðra nota verksins af sérstökum ástæðum.
  • Komið er á fót sérstöku fyrirkomulagi í félagslegu formi, þar sem rétthafinn getur ekki komið í veg fyrir notkun verka sinna gegn því að þóknun greiðist fyrir afnotin.
  • Notkun verksins byggist á samingi notandans og heildarsamtaka rétthafa.