Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, skammstafað „STEF“ gætir hagsmuna tónskálda og höfunda texta að tónlist vegna opinbers flutnings tónlistar og texta á Íslandi. STEF var stofnað hinn 31. janúar 1948 að frumkvæði tónskáldsins Jóns Leifs.
Höfundaréttarsamtök á borð við STEF er að finna í flestum löndum heims og hefur STEF gert gagnkvæma samninga við öll helstu samtökin þar sem STEF fær umboð til þess að gæta hér á Íslandi hagsmuna erlendra höfunda. Á móti gæta erlend systursamtök hagsmuna íslenskra tónskálda og textahöfunda erlendis.
Félagar í STEFi eru þeir sem eru skráðir félagar í FTT, þeir sem eru skráðir félagar í T.Í. og síðan aðrir þeir sem ekki eru skráðir í þessi tvö félög, en hafa veitt STEFi umboð sitt. Ekkert kostar að verða félagi í STEFi.
Verkefni STEFs eru í aðalatriðum þrenns konar: Í fyrsta lagi beitir STEF sér fyrir að varðveita og efla höfundarétt á sviði tónlistar. Mótar STEF stefnu á þessu sviði sem félagar í samtökunum eru bundnir af.
Í öðru lagi sér STEF um að innheimta höfundaréttargjöld fyrir flutning tónlistar þar sem hún er flutt opinberlega. Hefur STEF gert samninga við suma þá sem tónlist flytja, eins og stærstu útvarpsstöðvarnar, en hjá öðrum innheimtir STEF gjöldin samkvæmt gjaldskrá. Þetta er fyrirferðarmikill þáttur í starfi samtakanna. Þeir sem greiða höfundarréttargjöld til STEFs, skipta þúsundum. Hefur STEF sérstaka löggildingu frá menntamálaráðuneytinu til að innheimta höfundarréttargjöld fyrir flutning á tónlist og tilheyrandi texta, sem verndar nýtur samkvæmt höfundalögum, hvort sem samtökin hafa fengið umboð hlutaðeigandi höfundar eða ekki.
Þriðja meginverkefni STEFs er að úthluta því, sem innheimst hefur, til hlutaðeigandi rétthafa, eftir að kostnaður við starfsemi samtakanna hefur verið dreginn frá. Úthlutun fer fram á grundvelli upplýsinga um hvaða verk hafa verið flutt, t.d. í útvarpi, og er leitast við að hafa hana sem nákvæmasta, þó þannig að kostnaður við að afla upplýsinga og skrá þær verði ekki óheyrilega hár svo að sem mest komi til skipta milli rétthafa þegar upp er staðið.
STEF hefur falið Nordisk Copyright Bureau í Kaupmannahöfn, skammstafað NCB, að gæta hagsmuna félagsmanna sinna á sviði upptökuréttar (eintakagerðar). Þessi hagsmunagæsla er alþjóðleg.